Vistaskipti brúarsmiðs

Nú er komið að tímamótum í Brúarsmiðjunni eftir sex ár við fjölbreytt verkefni á sviði menningarmiðlunar. Brúarsmiðurinn er búinn að ráða sig í nýtt starf, sem vefritstjóri hjá Alþingi, og mun því ekki taka að sér fleiri verkefni á fyrri vettvangi. Á lokametrunum eru nú fjögur verkefni, sem svo skemmtilega vill til að öll eru í formi bóka: Sú þeirra sem fyrst kemur út er um Friðheima og er í ritstjórn brúarsmiðsins. Árbók Ferðafélags Íslands 2019 um Mosfellsheiði sem kemur út næsta vor og gönguleiðabók um heiðina sem kemur út í kjölfarið eru unnar af þremur höfundum; Margréti, Bjarka Bjarnasyni og Jóni Svanþórssyni, og loks er að geta 100 ára afmælisrits Kvenfélags Grímsneshrepps, sem sömuleiðis kemur út næsta vor og er vel á vegi. Brúarsmiðurinn þakkar viðskiptavinum og samverkafólki kærlega fyrir farsælt samstarf á liðnum árum – og hlakkar til að spreyta sig á nýjum vettvangi við Austurvöll.

Höfundur: |13/08/2018

Nýárskveðjur frá Brúarsmiðjunni!

Þá er enn eitt árið senn á enda runnið og kominn tími til að þakka samverkafólki og viðskiptavinum frjótt samstarf á liðnu ári og óska þeim öllum gleði, friðar og farsældar á nýju ári!

Verkefni ársins 2017 voru fjölbreytt að vanda. Má þar nefna ljósmynda- og sögusýningar í þremur nýuppgerðum húsum íbúðahótelsins Reykjavík Residence í Skuggahverfinu í Reykjavík, nýjan vef fyrir Safnaráð, útvarpsþátt um vestfirsku verkalýðsbaráttukonuna Karítas Skarphéðinsdóttur, ýmis verkefni fyrir Hótel Húsafell og upplýsingaskilti við Þjófafoss í Þjórsá og við eyðibýlin í þjóðgarðinum á Þingvöllum, sem sett verða niður þegar frost fer úr jörðu.

Verkefnið um gönguleiðir á Mosfellsheiði sem áður hefur verið sagt frá á þessum vettvangi tók óvæntan snúning í vor þegar höfundar voru að því komnir að skila frágengnu handriti til útgefandans, Ferðafélags Íslands. Þá varpar framkvæmdastjóri félagsins fram þeirri hugmynd að þar sem verkið sé orðið allmikið að vöxtum og vandað sé þar hreinlega komin uppistaða í heila Árbók Ferðafélags Íslands um Mosfellsheiði. Eftir nokkra umhugsun komust Heiðarmenn (sem auk brúarsmiðsins eru þeir Bjarki Bjarnason og Jón Svanþórsson) að þeirri niðurstöðu að þetta væri svo mikill heiður að ómögulegt væri að hafna tilboðinu. Síðan var bætt um betur og samið um að í kjölfar árbókarinnar kæmi út gönguleiðabók þar sem lýst yrði ítarlega þeim 23 leiðum sem hópurinn hefur kortlagt á göngum sínum um heiðina á liðnum sumrum. Báðar munu bækurnar koma út á árinu 2019.

Og eins og það sé ekki nóg að stefna á útgáfu tveggja bóka á einu og sama árinu, þá undirritaði brúarsmiðurinn nú skömmu fyrir jól samning við Kvenfélag Grímsneshrepps um ritun 100 ára sögu félagsins, sem gefin verður út á bók vorið 2019.

Mörg af þessum verkefnum eru unnin í nánu samstarfi við hönnuðinn Björgu Vilhjálmsdóttur, sem einnig er með vinnustofu hér á Óðinsgötu 7, þar sem Brúarsmiðjan hefur verið til húsa allt frá upphafi, eða í hátt á sjötta ár. Nú er Edda Sigurðardóttir í PORTI hönnun, sem hefur verið mikilvægur samstarfsaðili Brúarsmiðjunnar á undanförnum árum, aftur flutt vestur til Bandaríkjanna og því lengra á milli. Við höldum þó áfram með nokkur verkefni saman, sem gaman verður að segja frá áður en langt um líður. Gott samstarfsfólk er gulli betra – og báðar eru þær Edda og Björg í algjörum sérflokki!

Menningarmiðlarinn í Brúarsmiðjunni þakkar fyrir sig, sendir bestu nýárskveðjur og hlakkar til nýrra ævintýra á komandi ári! Áður en við vitum af verður aftur komið vor – og því til áréttingar fylgir hér mynd frá liðnu sumri af blágresi austan úr Þingvallasveit.

Höfundur: |29/12/2017

Samið um ritun 100 ára sögu Kvenfélags Grímsneshrepps

Verkefni Brúarsmiðjunnar eru mörg og margvísleg. Skrifað var undir samning um það nýjasta nú um helgina, ritun hundrað ára sögu Kvenfélags Grímsneshrepps. Félagið var stofnað 24. apríl 1919. Bókin mun fjalla um starfsemi félagsins í hundrað ár, sögu þess og þróun frá upphafi til samtímans – og bregða upp lifandi myndum af starfi félagskvenna fyrr og nú. Þegar hefur verið farin ein ferð á Héraðsskjalasafn Árnesinga til að grúska í fundargerðarbókum félagsins og á nýju ári er ætlunin að taka viðtöl við nokkrar kvenfélagskonur, eldri jafnt sem yngri, skoða myndir úr starfinu og fiska upp forvitnilegar sögur. Gert er ráð fyrir að bókin komi út í tæka tíð fyrir aldarafmælið vorið 2019.

Á myndinni eru þær Laufey Guðmundsdóttir, formaður Kvenfélags Grímsneshrepps, og Margrét Sveinbjörnsdóttir, menningarmiðlari í Brúarsmiðjunni, sem hefst nú handa við ritun sögu félagsins.

 

Höfundur: |18/12/2017

Nýr vefur safnaráðs

Nýr vefur safnaráðs er kominn í loftið. Hönnun og forritun á vefnum var í höndum Jóns Inga Stefánssonar og Brúarsmiðjan sá um ritstjórn texta. Brúarsmiðjan óskar safnaráði til hamingju með nýja vefinn – og þakkar fyrir einkar ánægjulegt samstarf!

Meginhlutverk safnaráðs er að hafa eftirlit með safnastarfsemi í landinu, vinna að stefnumörkun um safnastarf, fjalla um stofnskrár og viðurkenningar safna og veita umsagnir um styrkumsóknir í safnasjóð.

Höfundur: |21/08/2017

Bestu nýárskveðjur!

Brúarsmiðjan þakkar samverkafólki og viðskiptavinum frjótt og gott samstarf á liðnu ári, óskar þeim öllum gleði, friðar og farsældar á nýju ári – og hlakkar til nýrra ævintýra á menningarmiðlunarakrinum!

Á árinu 2016 voru vefverkefni nokkuð áberandi og bar þar hæst nýjar vefsíður fyrir þrjú fyrirtæki í ferðaþjónustu: Lake Thingvellir Cottages, Bjarteyjarsandur og Stóri-Kambur. Þá voru unnin þrjú upplýsingaskilti fyrir Hvalfjarðarsveit, sem sett verða upp á leiðinni að Glym, hæsta fossi landsins sem dregur að sér stöðugt fleiri ferðamenn. Allt þetta og fleira til var samstarfsverkefni Brúarsmiðjunnar og PORTS hönnunar.

Þá er ótalið verkefni fyrir Bændasamtökin, sem nú er á lokametrunum og verður gerð nánari skil síðar. Á haustmánuðum stökk brúarsmiðurinn svo um stundarsakir inn í sitt gamla starf hjá Íslensku óperunni og leysti af kynningar- og markaðsstjórann sem brá sér í sönghlutverk í Évgení Onegin.

Og brúarsmiðurinn situr ekki við tölvuna alla daga, því margar góðar stundir á liðnu sumri fóru í að kanna gamlar leiðir á Mosfellsheiði ásamt meðhöfundum að væntanlegri bók um gönguleiðir á heiðinni sem kemur út í samstarfi við Ferðafélag Íslands með vorinu. Meira um það þegar nær dregur…

Höfundur: |30/12/2016

Nýr vefur Lake Thingvellir Cottages

Nýr vefur Lake Thingvellir Cottages er kominn í loftið. Hönnun á vefnum var í höndum Eddu V. Sigurðardóttur í PORTI hönnun, vefforritun annaðist Helgi Jónsson í Proton og Brúarsmiðjan sá um ritstjórn texta. Brúarsmiðjan óskar þeim Boggu og Kolbeini á Heiðarási til hamingju með nýja vefinn – og þakkar fyrir sérdeilis ánægjulegt samstarf!

Lake Thingvellir Cottages eru fjögur notaleg smáhýsi á Heiðarási við Þingvallavatn, steinsnar frá Þjóðgarðinum á Þingvöllum. Úr húsunum er stórfenglegt útsýni yfir vatnið og fjallahringinn og þaðan er stutt að fara í dagsferðir til allra helstu ferðamannastaða á Suðvesturlandi.

Skoðið vefinn – sjón er sögu ríkari!

Höfundur: |12/05/2016

Nýárskveðja!

Brúarsmiðjan þakkar samverkafólki og viðskiptavinum frjótt og gott samstarf á nýliðnu ári, óskar þeim öllum gleði, friðar og farsældar á nýju ári – og hlakkar til nýrra ævintýra!

Nokkrir af hápunktunum í verkefnum ársins 2015 voru sögusýning á nýju hóteli á Húsafelli, sögugöngur til heiðurs fyrstu fimm konunum sem kjörnar voru á Alþingi – og önnur sögusýning um konur sem ruddu brautina í Kópavogi. Þá spreytti brúarsmiðurinn sig á háskólakennslu, hvort tveggja við Háskóla Íslands og Listaháskólann. Margar góðar stundir fóru ennfremur í að ganga þvers og kruss um Mosfellsheiði í félagi við meðhöfunda að væntanlegri bók um gönguleiðir á heiðinni.

Ýmis áhugaverð verkefni eru á döfinni á nýju ári, flest þeirra í því fólgin að byggja brýr á milli menningar og ferðaþjónustu í víðum skilningi.

Höfundur: |30/12/2015

Grundarstígur 10 hundrað ára

Hannesarholt fagnaði 100 ára afmæli hússins að Grundarstíg 10 föstudaginn 4. desember með því að bjóða í afmæliskaffi hönnuðum og iðnaðarmönnum sem komu að endurbyggingu hússins og opna nýja undirsíðu á vef hússins um sögu endurbyggingarinnar. Brúarsmiðjan annaðist vefritstjórn undirsíðunnar, Kári Martinsson Regal í PORTI hönnun sá um vefhönnun og Helgi Jónsson í Proton forritaði vefinn.

Höfundur: |08/12/2015

Sögusýning á Hótel Húsafelli

Í salnum Mosa á neðri hæðinni á hinu nýja Hótel Húsafelli er nýopnuð sögusýning sem Brúarsmiðjan og PORT hönnun unnu um gestamóttöku þar á bæ, prestinn Snorra á Húsafelli, listamennina sem þar voru fastagestir á fyrri hluta síðustu aldar, handverkshefð Húsfellinga gegnum kynslóðirnar og listamanninn Pál á Húsafelli.

Meðfylgjandi myndir tók Edda V. Sigurðardóttir í PORTI hönnun þegar sýningin var sett upp.

Bræðurnir Baldursson eiga heiðurinn að prentun og uppsetningu. 

Höfundur: |15/08/2015

Enn af fyrstu konunum

Það er gleðiefni hversu margir hafa sýnt áhuga á sögugöngunni um fyrstu fimm konurnar sem kjörnar voru á Alþingi. Upphaflega stóð aðeins til að fara tvisvar og hlutu Margrét Sveinbjörnsdóttir menningarmiðlari í Brúarsmiðjunni og Eyrún Ingadóttir sagnfræðingur til þess styrk frá Framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Í kringum 100 manns tóku þátt í hvorri göngu – en þar með var ekki allt búið. Vegna fjölda áskorana var efnt til aukagöngu í júlí og nú hafa verið bókaðar tvær göngur í haust fyrir starfsmannafélög hér í borg, auk þess sem við vitum af fleirum sem banka á dyrnar.

Ef ennþá reynast fleiri áhugasamir erum við til viðræðu um að bæta við göngum síðsumars og í haust, en þó að því tilskildu að næg þátttaka fáist – og þá gegn vægu gjaldi. Nánari upplýsingar má fá með því að senda línu á netfangið margret@bruarsmidjan.is eða hringja í síma 863 7694.

Höfundur: |10/08/2015