Brúarsmiðjan þakkar samverkafólki og viðskiptavinum frjótt og gott samstarf á liðnu ári, óskar þeim öllum gleði, friðar og farsældar á nýju ári – og hlakkar til nýrra ævintýra á menningarmiðlunarakrinum!

Á árinu 2016 voru vefverkefni nokkuð áberandi og bar þar hæst nýjar vefsíður fyrir þrjú fyrirtæki í ferðaþjónustu: Lake Thingvellir Cottages, Bjarteyjarsandur og Stóri-Kambur. Þá voru unnin þrjú upplýsingaskilti fyrir Hvalfjarðarsveit, sem sett verða upp á leiðinni að Glym, hæsta fossi landsins sem dregur að sér stöðugt fleiri ferðamenn. Allt þetta og fleira til var samstarfsverkefni Brúarsmiðjunnar og PORTS hönnunar.

Þá er ótalið verkefni fyrir Bændasamtökin, sem nú er á lokametrunum og verður gerð nánari skil síðar. Á haustmánuðum stökk brúarsmiðurinn svo um stundarsakir inn í sitt gamla starf hjá Íslensku óperunni og leysti af kynningar- og markaðsstjórann sem brá sér í sönghlutverk í Évgení Onegin.

Og brúarsmiðurinn situr ekki við tölvuna alla daga, því margar góðar stundir á liðnu sumri fóru í að kanna gamlar leiðir á Mosfellsheiði ásamt meðhöfundum að væntanlegri bók um gönguleiðir á heiðinni sem kemur út í samstarfi við Ferðafélag Íslands með vorinu. Meira um það þegar nær dregur…