Það er gleðiefni hversu margir hafa sýnt áhuga á sögugöngunni um fyrstu fimm konurnar sem kjörnar voru á Alþingi. Upphaflega stóð aðeins til að fara tvisvar og hlutu Margrét Sveinbjörnsdóttir menningarmiðlari í Brúarsmiðjunni og Eyrún Ingadóttir sagnfræðingur til þess styrk frá Framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Í kringum 100 manns tóku þátt í hvorri göngu – en þar með var ekki allt búið. Vegna fjölda áskorana var efnt til aukagöngu í júlí og nú hafa verið bókaðar tvær göngur í haust fyrir starfsmannafélög hér í borg, auk þess sem við vitum af fleirum sem banka á dyrnar.

Ef ennþá reynast fleiri áhugasamir erum við til viðræðu um að bæta við göngum síðsumars og í haust, en þó að því tilskildu að næg þátttaka fáist – og þá gegn vægu gjaldi. Nánari upplýsingar má fá með því að senda línu á netfangið margret@bruarsmidjan.is eða hringja í síma 863 7694.