Þá er enn eitt árið senn á enda runnið og kominn tími til að þakka samverkafólki og viðskiptavinum frjótt samstarf á liðnu ári og óska þeim öllum gleði, friðar og farsældar á nýju ári!

Verkefni ársins 2017 voru fjölbreytt að vanda. Má þar nefna ljósmynda- og sögusýningar í þremur nýuppgerðum húsum íbúðahótelsins Reykjavík Residence í Skuggahverfinu í Reykjavík, nýjan vef fyrir Safnaráð, útvarpsþátt um vestfirsku verkalýðsbaráttukonuna Karítas Skarphéðinsdóttur, ýmis verkefni fyrir Hótel Húsafell og upplýsingaskilti við Þjófafoss í Þjórsá og við eyðibýlin í þjóðgarðinum á Þingvöllum, sem sett verða niður þegar frost fer úr jörðu.

Verkefnið um gönguleiðir á Mosfellsheiði sem áður hefur verið sagt frá á þessum vettvangi tók óvæntan snúning í vor þegar höfundar voru að því komnir að skila frágengnu handriti til útgefandans, Ferðafélags Íslands. Þá varpar framkvæmdastjóri félagsins fram þeirri hugmynd að þar sem verkið sé orðið allmikið að vöxtum og vandað sé þar hreinlega komin uppistaða í heila Árbók Ferðafélags Íslands um Mosfellsheiði. Eftir nokkra umhugsun komust Heiðarmenn (sem auk brúarsmiðsins eru þeir Bjarki Bjarnason og Jón Svanþórsson) að þeirri niðurstöðu að þetta væri svo mikill heiður að ómögulegt væri að hafna tilboðinu. Síðan var bætt um betur og samið um að í kjölfar árbókarinnar kæmi út gönguleiðabók þar sem lýst yrði ítarlega þeim 23 leiðum sem hópurinn hefur kortlagt á göngum sínum um heiðina á liðnum sumrum. Báðar munu bækurnar koma út á árinu 2019.

Og eins og það sé ekki nóg að stefna á útgáfu tveggja bóka á einu og sama árinu, þá undirritaði brúarsmiðurinn nú skömmu fyrir jól samning við Kvenfélag Grímsneshrepps um ritun 100 ára sögu félagsins, sem gefin verður út á bók vorið 2019.

Mörg af þessum verkefnum eru unnin í nánu samstarfi við hönnuðinn Björgu Vilhjálmsdóttur, sem einnig er með vinnustofu hér á Óðinsgötu 7, þar sem Brúarsmiðjan hefur verið til húsa allt frá upphafi, eða í hátt á sjötta ár. Nú er Edda Sigurðardóttir í PORTI hönnun, sem hefur verið mikilvægur samstarfsaðili Brúarsmiðjunnar á undanförnum árum, aftur flutt vestur til Bandaríkjanna og því lengra á milli. Við höldum þó áfram með nokkur verkefni saman, sem gaman verður að segja frá áður en langt um líður. Gott samstarfsfólk er gulli betra – og báðar eru þær Edda og Björg í algjörum sérflokki!

Menningarmiðlarinn í Brúarsmiðjunni þakkar fyrir sig, sendir bestu nýárskveðjur og hlakkar til nýrra ævintýra á komandi ári! Áður en við vitum af verður aftur komið vor – og því til áréttingar fylgir hér mynd frá liðnu sumri af blágresi austan úr Þingvallasveit.