Verkefni Brúarsmiðjunnar eru mörg og margvísleg. Skrifað var undir samning um það nýjasta nú um helgina, ritun hundrað ára sögu Kvenfélags Grímsneshrepps. Félagið var stofnað 24. apríl 1919. Bókin mun fjalla um starfsemi félagsins í hundrað ár, sögu þess og þróun frá upphafi til samtímans – og bregða upp lifandi myndum af starfi félagskvenna fyrr og nú. Þegar hefur verið farin ein ferð á Héraðsskjalasafn Árnesinga til að grúska í fundargerðarbókum félagsins og á nýju ári er ætlunin að taka viðtöl við nokkrar kvenfélagskonur, eldri jafnt sem yngri, skoða myndir úr starfinu og fiska upp forvitnilegar sögur. Gert er ráð fyrir að bókin komi út í tæka tíð fyrir aldarafmælið vorið 2019.

Á myndinni eru þær Laufey Guðmundsdóttir, formaður Kvenfélags Grímsneshrepps, og Margrét Sveinbjörnsdóttir, menningarmiðlari í Brúarsmiðjunni, sem hefst nú handa við ritun sögu félagsins.