Fyrirtækið

Markmið Brúarsmiðjunnar er að byggja brýr á milli menningar og ferðaþjónustu. Brúarsmiðjan veitir ráðgjöf um menningarmiðlun og hágæðamenningarferðaþjónustu – og miðlar menningu á lifandi, áhugaverðan og vandaðan hátt, með áherslu á upplifun, gagnvirkni, gæði og skemmtimenntun (sem er íslensk aðlögun á ensku orðunum infotainment og edutainment). Hugsunin er að veita öðrum ráðgjöf við miðlun menningar og að miðla sjálf, með því að setja upp frá grunni sýningar, viðburði og ýmsar eftirminnilegar upplifanir.

Brúarsmiðjan var stofnuð 3. júlí 2012.

Brúarsmiðurinn

Heimilisfang
Óðinsgata 7, 101 Reykjavík
Netfang
Sími
(+354) 863-7694
Kennitala
460712-1810
Brúarsmiðjan á Facebook

Framkvæmdastjóri Brúarsmiðjunnar er Margrét Sveinbjörnsdóttir menningarmiðlari – sem einnig gegnir starfsheitinu brúarsmiður. Hún er Þingvellingur að uppruna en býr nú í vesturbæ Reykjavíkur.

Margrét lauk meistaraprófi í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands haustið 2011. Hún er auk þess með cand.mag.-gráðu í norrænum málum og bókmenntum frá Árósaháskóla með hagnýta fjölmiðlun frá Háskóla Íslands sem aukagrein. Þá hefur hún lokið diplomanámi í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Mikilvæg viðbót við fyrrgreint nám var svo Brautargengisnámskeið hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands vorið 2012.

Á árunum 2006-2012 starfaði Margrét hjá AP almanna-tengslum sem ráðgjafi og verkefnastjóri. Þar áður, 2001-2006, vann hún hjá Íslensku óperunni, sem kynningarstjóri og síðar yfirmaður markaðssviðs. Hún var blaðamaður á Morgunblaðinu á árunum 1996-2001, í innlendum fréttum og á menningarritstjórn. Sumrin 1996-2002 starfaði hún við leiðsögn á útsýnissiglingabátnum Himbrimanum á Þingvallavatni meðfram öðrum störfum.

Eins og sannri sveitastúlku sæmir er Margrét alin upp við flest almenn sveitastörf; heyskap, sauðburð, húsverk, skítmokstur, smalamennskur og murtuveiði, svo fátt eitt sé nefnt. Á unglingsárunum vann hún einnig nokkur sumur í Þjónustumiðstöðinni og Þjóðgarðinum á Þingvöllum.

Margrét er félagi í FÍSOS (Félagi íslenskra safna og safnmanna), Almannatengslafélagi Íslands og Blaðamannafélagi Íslands.

Margrét er einn af stofnendum Upplits, menningarklasa uppsveita Árnessýslu, og sat þar í stjórn 2010-2012, síðasta árið sem formaður. Hún er einnig á meðal stofnfélaga Söngfjelagsins og sat þar í stjórn 2012-2013.

Samstarfsaðilar

Brúarsmiðjan velur sér samverkafólk eftir þörfum verkefnisins hverju sinni og nýtir þar fyrri reynslu brúarsmiðsins af störfum með grafískum hönnuðum, ljósmyndurum, skiltagerðum, prent-smiðjum, fjölmiðlum, ferðaþjónustu-aðilum, lista- og fræðimönnum, svo nokkrir séu nefndir.

Merki

Edda V. Sigurðardóttir, grafískur hönnuður hjá PORTI hönnun, hannaði merki Brúarsmiðjunnar.

Vefur

Vefur Brúarsmiðjunnar er settur upp í vefumsjónarkerfinu WordPress, sniðmátinu Avada, sem hannað er af ThemeFusion og aðlagað af Kára Martinssyni Regal, grafískum hönnuði hjá PORTI hönnun.