Við brúarsporðinn

Fyrstu fimm konurnar á þingi

Fyrstu fimm konurnar sem kjörnar voru á Alþingi voru í aðalhlutverki í sögugöngu sem Brúarsmiðjan stóð fyrir ásamt Eyrúnu Ingadóttur sagnfræðingi. Fyrri gangan var 20. júní og sú seinni 6. júlí og mætti fjölmenni í bæði skiptin. Þá er lokið verkefninu sem Framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna studdi – og kunnum við nefndinni bestu þakkir fyrir.

Ef frekari áhugi reynist vera fyrir hendi er möguleiki að efnt verði til aukagöngu. Það verður þó aðeins ef næg þátttaka fæst, og þá gegn vægu gjaldi. Áhugasamir geta sent línu á netfangið margret@bruarsmidjan.is og skráð nafn og netfang á lista.

 

Höfundur: |07/07/2015

Söguganga um fyrstu fimm konurnar á Alþingi

Fyrstu fimm konurnar sem kjörnar voru á Alþingi Íslendinga eru viðfangsefni sögugöngu um miðborg Reykjavíkur. Stiklað verður á sögu þessara kvenna og kvennabaráttunnar á fyrri hluta 20. aldar ásamt því að segja frá helstu baráttumálum þeirra á þingi. Konurnar sem fjallað verður um eru þær Ingibjörg H. Bjarnason, Guðrún Lárusdóttir, Katrín Thoroddsen, Kristín L. Sigurðardóttir og Rannveig Þorsteinsdóttir.

Upphafspunktur göngunnar verður Alþingi við Austurvöll og henni lýkur í Hólavallagarði, þar sem fjórar af þessum fimm konum hvíla. Á leiðinni verður komið við á ýmsum stöðum sem tengjast lífi og starfi þessara kvenna. Áætlað er að gangan taki um 1,5 til 2 klst.

Gangan er á dagskrá tvisvar í sumar; laugardaginn 20. júní kl. 14:00, en þann dag verður einnig sýning í Alþingishúsinu tileinkuð kosningarétti kvenna, og mánudagskvöldið 6. júlí kl. 20.00.

Verkefnið er styrkt af Framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna og er þátttaka í göngunni ókeypis í þessi tvö skipti.

Hópar geta pantað leiðsögn á öðrum tímum, gegn vægu gjaldi.

Sögukonur í göngunni eru þær Eyrún Ingadóttir sagnfræðingur og Margrét Sveinbjörnsdóttir menningarmiðlari og brúarsmiður.

Höfundur: |16/06/2015

„Þær ruddu brautina“

„Þær ruddu brautina“ er yfirskrift sýningar sem var opnuð í dag í anddyri Salarins. Þar er fjallað um konur sem hafa verið í fararbroddi á ýmsum sviðum í Kópavogi.

Brúarsmiðjan og PORT hönnun unnu sýninguna að tilstuðlan afmælisnefndar Kópavogsbæjar í tilefni af 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna og 60 ára afmæli bæjarins.

 

Höfundur: |06/05/2015

PORT & BRÚ

Brúarsmiðnum dettur helst í hug heimili rafvirkjans þar sem alltaf voru „rússneskar“ perur vegna þess að rafvirkinn mátti ekki vera að því að klára að græja rafmagnið heima hjá sér. En það er kannski ekki seinna vænna að segja frá því hér á þessum vettvangi að PORT hönnun og Brúarsmiðjan, sem hafa unnið saman að fjölmörgum verkefnum á undanförnum árum, hafa nú formgert samstarfið með því að kynna sig undir heitinu PORT & BRÚ. Nánar um það á vefnum www.PORTogBRU.is, þar sem finna má upplýsingar um nokkur valin verkefni. Sömuleiðis á Facebook-síðu samstarfsins. Sjón er sögu ríkari!

Dags daglega vinna fyrirtækin PORT hönnun og Brúarsmiðjan hvort í sínu lagi (hér er sem sagt ekki á ferðinni sameining) – en þess á milli taka þau að sér sameiginleg verkefni, mörg þeirra tengd ferðaþjónustu, menningu, mat og náttúru. Þegar PORT & BRÚ leggja saman krafta sína er samankomin dýrmæt reynsla og þekking á hönnun merkja og heildarútlits, umbúða og vefsíðna, textaskrifum, ritstjórn, heimildavinnu, verkefnastjórnun og margvíslegri menningarmiðlun. Hér er með öðrum orðum á ferð öflugt teymi sem hefur gaman af að vinna saman!

Höfundur: |08/04/2015

Nýárskveðja!

Brúarsmiðjan þakkar samverkafólki og viðskiptavinum samstarfið á nýliðnu ári, óskar þeim öllum gleði, friðar og farsældar á nýju ári – og hlakkar til nýrra ævintýra!

Starfsárið var viðburðaríkt og skemmtilegt. Nokkrir af hápunktunum í verkefnum ársins 2014 voru fræðslusýning í Orgelsmiðjunni á Stokkseyri, sögusýningar í  ferðamannafjósinu í Efstadal og á Reykjavík Residence hóteli, og upplýsingaskilti við Urriðafoss. Ýmislegt spennandi er á döfinni – en meira um það síðar…

Höfundur: |01/01/2015

Síðustu forvöð að sjá Ljósusýningu á Safnahelgi

Nú stendur yfir Safnahelgi á Suðurlandi og margt um að vera af því tilefni um allt Suðurland. Þó að Brúarsmiðjan sé ekki beinn þátttakandi að þessu sinni má þó vekja athygli á því að nú eru síðustu forvöð að sjá sýninguna Ljósan á Bakkanum í Húsinu á Eyrarbakka, en þar verður fjölbreytt dagskrá um helgina, sem skoða má nánar á vef Hússins. Þá má einnig sjá aðra sýningu sem Brúarsmiðjan og PORT hönnun settu upp í Orgelsmiðjunni á Stokkseyri, þar sem einnig verður opið hús og tónleikar um helgina, sjá nánar hér.

Höfundur: |31/10/2014

Kvenfélögin fyrr og nú

Kvenfélögin í uppsveitum Árnessýslu vestan Hvítár voru viðfangsefni erindis brúarsmiðsins á þriðja kvöldi átthagafræðinámskeiðs sem Fræðslunet Suðurlands stendur fyrir um þessar mundir í samstarfi við Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshrepp. Yfirskrift erindisins var „Kvenfélögin: Félagsþjónusta fyrri tíma – en hvað með framtíðina?“ Stiklað var á sögu fimm kvenfélaga og spáð í stöðu þeirra og hlutverk í fortíð og nútíð. Einnig fjallaði Jón M. Ívarsson um ungmennafélögin. Þátttakendur á námskeiðinu, sem flestir eru eða hafa verið félagar í kvenfélagi eða ungmennafélagi, nema hvort tveggja sé, tóku virkan þátt í umræðum og lögðu gott til mála. Nánar um námskeiðið á vef Fræðslunetsins.

Höfundur: |10/10/2014

Gömul hús með nýtt hlutverk

Nú gefst forvitnum færi á að gægjast inn í fjögur um það bil aldargömul en nýlega uppgerð hús íbúðahótelsins Reykjavík Residence á Hverfisgötu 21  og 45 og Veghúsastíg 7 og 9 – en þar hafa Brúarsmiðjan og PORT hönnun sett upp sögusýningu. Uppistaðan í sýningunni eru ljósmyndir, flestar fengnar að láni frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Ljósmyndasafni Íslands, Félagi bókagerðarmanna, Söngskólanum í Reykjavík og úr einkasöfnum og með fylgja stuttir myndatextar á íslensku og ensku. Margrét Sveinbjörnsdóttir menningarmiðlari leiðir gesti um húsin og stiklar á sögu þeirra með aðstoð góðra gesta sem þar þekkja vel til.

Á Hverfisgötu 21 verður Svanur Jóhannesson bókbindari til halds og trausts, en hann vann lengi í húsinu þar sem Hið íslenska prentarafélag og seinna Félag bókagerðarmanna hafði aðsetur í rúma sjö áratugi. Þar mun einnig bregða fyrir Jóni Magnússyni forsætisráðherra og Kristjáni X Danakonungi, að ógleymdum bóhemum úr Mjólkurfélagi heilagra.

Á Hverfisgötu 45, sem Matthías Einarsson læknir byggði árið 1914 og er talið eitt elsta dæmið um íslenska steinsteypuklassík í Reykjavík, var seinna Sendiráð Noregs og þar á eftir Söngskólinn í Reykjavík í tæpan aldarfjórðung. Garðar Cortes, skólastjóri Söngskólans, rifjar upp minningar úr sögu skólans þar.

Á bak við Hverfisgötu 45 eru svo tvö hús sem einnig tilheyra hótelinu; Veghúsastígur 7 og 9. Þar lýkur dagskránni með frásögn af smjörlíkisgerð, bókaútgáfu og annarri menningarstarfsemi á vegum Ragnars Jónssonar í Smára á Veghúsastíg 7, og af Bergi Einarssyni sútara, sem byggði Veghúsastíg 9, Bergshús, þar sem hann bjó ásamt fjölskyldu sinni og sútaði skinn.

Brúarsmiðjan og PORT hönnun hafa sett upp sögusýningar á göngum hótelsins í húsunum fjórum, þar sem stiklað á sögu húsanna og þeirrar starfsemi sem þar fór fram áður en þau fengu nýtt hlutverk. Uppistaðan í sýningunni er ljósmyndir, fengnar að láni frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Ljósmyndasafni Íslands, Félagi bókagerðarmanna, Söngskólanum í Reykjavík og úr einkasöfnum, og með fylgja stuttir textar á íslensku og ensku.

Dagskráin á Menningarnótt hefst kl. 14 á Hverfisgötu 21. Þaðan verður haldið upp á Hverfisgötu 45 um kl. 15 og loks yfir á Veghúsastíg 7 og 9. Gert er ráð fyrir að leiðsögn ljúki um kl. 17.

Allir eru hjartanlega velkomnir – og aðgangur er ókeypis.

Höfundur: |21/08/2014

Ljósusýning í Húsinu framlengd til hausts

Enn er möguleiki á að sjá sýninguna „Ljósan á Bakkanum“ í Byggðasafni Árnesinga í Húsinu á Eyrarbakka. Nú er sumartími genginn í garð á safninu og er opið alla daga kl. 11-18 fram til hausts.

Sýningin fjallar um líf og störf Þórdísar Símonardóttur sem var ljósmóðir á Eyrarbakka á árunum 1883 til 1926 og er sjónum beint að aðstæðum fæðandi kvenna á þessum tíma, starfsaðstæðum og kjörum ljósmæðra, sem flestar urðu að vinna önnur störf meðfram ljósmóðurstarfinu.

Sýningin er samstarfsverkefni Byggðasafns Árnesinga, Brúarsmiðjunnar og Eyrúnar Ingadóttur, sagnfræðings og höfundar Ljósmóðurinnar, sögulegrar skáldsögu um Þórdísi Símonardóttur. Upphaflega átti hún aðeins að standa eitt sumar en góðar viðtökur gesta urðu til þess að ákveðið var að framlengja sýninguna út sumarið 2014.

Höfundur: |21/05/2014

Ísferð í Efstadal

Á bænum Efstadal II í Laugardal flétta bændur saman kúabúskap og ferðaþjónustu á hugvitssamlegan og skemmtilegan hátt. Brúarsmiðjan og PORT hönnun hafa verið svo lánsöm að fá að taka þátt í hluta af því ævintýri; með því að vinna sögusýningu um búsetu fjölskyldunnar þar á bæ frá því fyrir 1700, fræðslu um afurðirnar sem unnar eru úr mjólkinni úr Efstadalskúnum, heildarútlit og merkingar.

Meðfylgjandi myndir tók Edda V. Sigurðardóttir í PORTI þegar sýningin var sett upp, en hún á heiðurinn að útlitshönnuninni, ásamt Kára Martinssyni Regal.

Höfundur: |02/05/2014