Við brúarsporðinn

Sýningaropnun í Orgelsmiðjunni

Orgelsmiðja Björgvins Tómassonar á Stokkseyri hefur nú opnað dyrnar fyrir gestum og gangandi – og Brúarsmiðjan og PORT hönnun lögðu þar hönd á plóg með uppsetningu og hönnun fræðslusýningar um orgelsmíðar. Sýningin var opnuð með pompi og prakt föstudaginn 28. mars, á fyrsta degi átaksins Leyndardóma Suðurlands sem nú stendur yfir.

Mikið var um dýrðir á opnuninni, þar sem Jónas Ingimundarson píanóleikari var heiðursgestur. Hann lék tvö lög eftir Stokkseyringinn Pál Ísólfsson, sem Gyða Björgvinsdóttir, dóttir orgelsmiðsins, söng. Hún söng einnig ásamt tríói sínu og Jörg Sondermann lék á orgel.

Orgelsmiðjan verður framvegis opin gestum kl. 10-18 virka daga og samkvæmt samkomulagi um helgar, gegn 750 kr. aðgangseyri.

Brúarsmiðurinn hafði sannarlega gaman af að kynnast leyndardómum orgelsmíðanna – og hvetur sem flesta til að heimsækja Björgvin og félaga í Orgelsmiðjunni í gamla frystihúsinu Hólmaröst á Stokkseyri, Hafnargötu 9. Gengið er inn sjávarmegin.

Meðfylgjandi myndir tók Kári Martinsson Regal, grafískur hönnuður í PORTI, á öðrum degi sýningarinnar.

Höfundur: |31/03/2014

Brúarsmiðjan í Samtök um söguferðaþjónustu

Brúarsmiðjan er gengin til liðs við hinn ágæta félagsskap Samtök um söguferðaþjónustu, sem héldu félagsfund og málþing í Reykjanebæ í dag. Nú er unnið að því að stækka og útvíkka samtökin þannig að þau nái til allra sem vinna með sögu landsins frá landnámi til samtímans. Brúarsmiðurinn hlakkar til að fylgjast með starfi samtakanna og taka þátt í þróun þess.

Höfundur: |28/02/2014

Gleðilegt nýtt ár!

Fyrsta heila starfsár Brúarsmiðjunnar var viðburðaríkt og skemmtilegt – og full ástæða til að líta bjartsýn fram á nýbyrjað ár með enn fleiri spennandi viðfangsefnum. Helstu verkefni ársins 2013 voru sýningin „Ljósan á Bakkanum“ í Húsinu á Eyrarbakka, verkefnisstjórn ráðstefnunnar Menningarlandsins 2013, upplýsingaskilti um Flóaáveituna, tveir nýir vefir; fyrir Friðheima og Kálfholt, sögugöngur á Þingvöllum, kynning á tónlistarhátíðinni „Englar og menn“ í Strandarkirkju og tvær sögusýningar á íbúðahótelum Reykjavík Residence á Hverfisgötunni – og er þó ekki allt upp talið.

Brúarsmiðurinn óskar samverkafólki og viðskiptavinum gleði, friðar og farsældar á nýju ári – og hlakkar til nýrra ævintýra!

Höfundur: |01/01/2014

Nýr vefur Kálfholts

Nýr vefur Kálfholts hestaferða og hrossaræktar er kominn í loftið. Hönnun á vefnum var í höndum þeirra Kára og Eddu hjá PORTI hönnun, vefforritun annaðist Helgi Jónsson í Proton og Brúarsmiðjan sá um ritstjórn texta.

Skoðið Kálfholtsvefinn – sjón er sögu ríkari!

Brúarsmiðjan óskar Eyrúnu Jónasdóttur og hennar fólki í Kálfholti til hamingju með nýja vefinn – og þakkar fyrir samstarfið.

Höfundur: |06/12/2013

Brúarsmíðar á Safnahelgi

Nú stendur fyrir dyrum Safnahelgi á Suðurlandi – og brúarsmiðurinn má til með að vekja sérstaka athygli á tveimur af fjölmörgum spennandi liðum á dagskrá helgarinnar, þar sem honum er málið skylt:

Um helgina verður opið í Húsinu á Eyrarbakka, þar sem m.a. má sjá sýninguna „Ljósan á Bakkanum“ sem var önnur tveggja sumarsýninga Hússins. Sýningin er samstarfsverkefni Brúarsmiðjunnar, Byggðasafns Árnesinga og Eyrúnar Ingadóttur sagnfræðings og höfundar Ljósmóðurinnar, sögulegrar skáldsögu um Þórdísi ljósmóður Símonardóttur. Opið verður í Húsinu á laugardag og sunnudag kl. 14-17.

Laugardaginn 2. nóvember býður Flóahreppur til gönguferðar að Flóðgáttinni vegna frumsýningar á upplýsingaskilti um Flóaáveituna, það mikla stórvirki síns tíma. Með tilkomu áveitunnar urðu mikil umskipti í búskap og atvinnuháttum á svæðinu þegar hún var vígð 1927. Nánar má glöggva sig á þeirri sögu í máli og myndum með því að skoða upplýsingaskiltið sem var unnið af Brúarsmiðjunni og Porti hönnun en myndir úr sögu áveitunnar voru flestar fengnar að láni hjá Héraðsskjalasafni Suðurlands. Göngustjóri verður Guðni Ágústsson og hefst gangan við áveituskurðinn við Brúnastaðaveg. Við Þjóðveg 1 (Flóaveg) er beygt út af veginum þar sem merkt er Miklholtshellir (303) og keyrt áleiðis upp að Brúnastöðum. Gangan er um 4 km báðar leiðir.

Höfundur: |30/10/2013

Opið hús á Hverfisgötu 21 á Menningarnótt

Nú gefst forvitnum færi á að gægjast inn í hið gullfallega og aldargamla hús Hverfisgötu 21 – en þar settu Brúarsmiðjan og PORT hönnun upp sögusýningu sl. vor þegar íbúðahótelið Reykjavík Residence var opnað. Uppistaðan í sýningunni eru ljósmyndir, flestar fengnar að láni frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Ljósmyndasafni Íslands, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni og Félagi bókagerðarmanna, og með fylgja stuttir myndatextar á íslensku og ensku. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur spjallar við gesti á Menningarnótt kl. 14-16 og rifjar upp sögur af íbúum og gestum hússins. Nánar um sýninguna.

Höfundur: |21/08/2013

Fetað í slóð Þórdísar ljósmóður

Söguganga um slóðir Þórdísar ljósmóður verður farin frá Húsinu á Eyrarbakka laugardaginn 10. ágúst kl. 15.00. Lagt er upp frá Húsinu og tekur gangan um klukkutíma. Það er Eyrún Ingadóttir sagnfræðingur og höfundur bókarinnar Ljósmóðurinnar, sögulegrar skáldsögu um Þórdísi Símonardóttur, sem mun rölta með föruneyti um Bakkann og segja frá húsum og fólki sem tengdist lífi ljósmóðurinnar. Allir eru velkomnir í gönguna og er aðgangur ókeypis. Sérstakur aldamótaafsláttur verður á aðgangseyri í Húsið þennan dag. Sýningin Ljósan á Bakkanum er opin fram í miðjan september, alla daga kl. 11-18.

Höfundur: |08/08/2013

Nýr vefur Friðheima opnaður

Austur í Friðheimum var þreföld ástæða til að fagna föstudaginn 21. júní: Litla tómatbúðin var opnuð, matarminjagripir frumsýndir og nýr vefur settur í loftið. Brúarsmiðurinn er stoltur af að hafa fengið að leggja þar hönd á plóg, með því að ritstýra texta á vefnum og á umbúðum matarminjagripanna. Öll hönnun var í höndum Eddu og Kára hjá PORTI hönnun og vefforritun annaðist Helgi Jónsson í Proton.

Skoðið Friðheimavefinn – sjón er sögu ríkari!

 

Höfundur: |24/06/2013

Nýtt á vefnum

Oft vill það verða svo þegar í nógu er að snúast að það mætir afgangi að uppfæra vefinn – og sú hefur einmitt verið raunin hjá Brúarsmiðjunni undanfarna mánuði. Og oft vill það líka verða svo að þegar sumarfrí er rétt handan við hornið þá er ráðist í að klára ýmis verk sem út af standa – og taka í raun ekki langan tíma þegar gengið er í málið. Þannig dreif brúarsmiðurinn loksins í því að setja inn á vefinn myndir og texta um nokkur nýleg verkefni; sýninguna Ljósan á Bakkanum, merkingar á Friðheimagóðgæti, ráðstefnuna Menningarlandið 2013 og sögusýningu á Hverfisgötu 21. Allt er þetta að finna hér á vefnum undir Verkin tala.

Fleiri spennandi verkefnum er um það bil að ljúka um þessar mundir; vefur Friðheima fer í loftið í næstu viku, bæklingur Kálfholts Hestaferða er að renna út úr prentvélunum og skilti um Flóaáveituna sem unnið er fyrir Flóahrepp er á lokastigi vinnslu.

Enn önnur áhugaverð verkefni eru svo í startholunum – en meira um þau síðar!

Höfundur: |12/06/2013

Ljósan á Bakkanum

Undanfarna daga hefur brúarsmiðurinn verið við vinnu á Eyrarbakka, nánar tiltekið í Byggðasafni Árnesinga. Verkefnið er sýning sem ber yfirskriftina „Ljósan á Bakkanum“ og fjallar um líf og störf Þórdísar Símonardóttur sem var ljósmóðir á Eyrarbakka á árunum 1883 til 1926. Sjónum verður beint að aðstæðum fæðandi kvenna á þessum tíma, starfsaðstæðum og kjörum ljósmæðra, sem flestar urðu að vinna önnur störf meðfram ljósmóðurstarfinu. Sýningin verður opnuð föstudaginn 24. maí nk. í Húsinu á Eyrarbakka og stendur til hausts – en hún er samstarfsverkefni Byggðasafns Árnesinga, Brúarsmiðjunnar og Eyrúnar Ingadóttur, sagnfræðings og höfundar Ljósmóðurinnar, sögulegrar skáldsögu um Þórdísi Símonardóttur sem út kom á síðastliðnu hausti.

Á myndinni má sjá leiði Þórdísar Símonardóttur og fósturdóttur hennar, Ágústu Jóhannesdóttur, í kirkjugarðinum á Eyrarbakka.

Höfundur: |10/05/2013