Við brúarsporðinn

Góðgæti frá Friðheimum

Það var svo sannarlega skemmtilegt verkefni fyrir brúarsmiðinn og hönnuðina Eddu og Kára í PORTI hönnun að fá að taka þátt í að skapa umbúðir og merkingar á splunkunýja vörulínu úr tómötum og gúrkum úr smiðju garðyrkjubændanna Knúts og Helenu í Friðheimum og Jóns kokks í Reykholti. Þau Knútur og Helena komu færandi hendi á okkar fund í gær, með nýáfylltar krukkur og flöskur með tómatsultu, gúrkusalsa, pastasósu, tómatgrillsósu, tómatsúpu og tómathressi – með fínu merkingunum okkar! Næsta verkefni er svo nýr vefur fyrir Friðheima – sem fer í loftið um miðjan maí…

Höfundur: |19/04/2013

Yfir 100 manns á Menningarlandinu 2013

Brúarsmiðurinn var verkefnisstjóri ráðstefnunnar Menningarlandið 2013, sem haldin var á Kirkjubæjarklaustri dagana 11.-12. apríl 2013. Þátttakendur voru yfir 100 manns frá öllum landshlutum – og umræðuefnið var framkvæmd og framtíð menningarsamninga.

Erindi sem flutt voru á ráðstefnunni voru öll tekin upp og eru nú aðgengileg á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og Menningarráð Suðurlands í samstarfi við önnur menningarráð landsbyggðarinnar stóðu að ráðstefnunni.

Höfundur: |18/04/2013

„Eftirminnilegastar voru pönnukökurnar…“

Hverju tekur þú sérstaklega eftir þegar þú ferðast og kaupir þér gistingu? Hvaða upplifun situr eftir? Gæði rúmanna? Glæsilegt morgunverðarhlaðborð? Góð þjónusta? Hlýlegt viðmót starfsfólks? Eða eitthvað allt annað?

Það var einmitt þetta „ allt annað“ sem var aðalumræðuefnið í vinnusmiðju Brúarsmiðjunnar og Ferðaþjónustu bænda á Hótel Borgarnesi í morgun, þar sem markmiðið var að finna fleiri leiðir til að gera upplifun gesta sem eftirminnilegasta. Það eru þessir „litlu hlutir“ sem skipta svo miklu máli þegar við rifjum upp minningar úr ferðalögum. Það sem er einstakt á hverjum stað, það sem gerir að gestirnir muna eftir einmitt þessum stað og segja frá upplifun sinni þegar þeir koma heim úr ferðalaginu. Þetta orðspor getur síðan skilað sér í fleiri gestum og þar með auknum tekjum.

Rætt var um það sem brúarsmiðurinn kýs að kalla „menningarlegt sjálfstraust“ – og voru ferðaþjónustubændur hvattir til að vera ekki feimnir við að hafa heimilislegt í kringum gesti sína. Nokkur dæmi voru nefnd: „Hafið útsaumuðu dúkana hennar ömmu á borðum, hengið listaverk barnanna og gömlu fjölskyldumyndirnar upp á veggi. Tínið blóm uppi í brekku og setjið í vasa. Skellið í pönnukökur, vöfflur, jólakökur og randalínur – þetta heimilislega og svolítið gamaldags bakkelsi, sem er hluti af ímynd íslenskrar sveitagestrisni! Dragið fram í dagsljósið gömul húsgögn, leirtau eða verkfæri, sem hægt er að nota til að segja gestunum frá sögu staðarins; hvort sem við erum stödd á slóðum Íslendingasagna, huldufólks, merkrar jarðsögu eða fornminja – öll svæði eiga sér sína sérstöðu, sem gestum þykir yfirleitt gaman að heyra um.“

Umræður meðal ferðaþjónustubænda voru fjörugar – en þeir voru beðnir að líta í eigin barm og skoða hver sérstaða og styrkleikar þeirra eigin bæja væru, hvað þeir væru nú þegar að gera til að nýta þá sérstöðu í þeim tilgangi að gera upplifun gestanna enn eftirminnilegri – og hvað þeir gætu gert meira til að koma sérstöðunni á framfæri. Loks var rætt um mikilvægi þess að setja sér skýr, mælanleg, tímasett – og raunsæ – markmið. Vinnusmiðjunni lauk með því að þátttakendur skrifuðu hver sinn aðgerðalista með skýrum markmiðum.

Og til að útskýra yfirskrift vinnusmiðjunnar, „Eftirminnilegastar voru pönnukökurnar…“, þá er hún einmitt fengin frá ónefndum erlendum gesti sem spurður var hvað hefði verið eftirminnilegast í Íslandsferðinni. Hann mat það mikils þegar húsráðendur buðu honum upp á nýbakaðar pönnukökur í eldhúsinu áður en hann kvaddi og hélt áfram ferð sinni.

Höfundur: |19/03/2013

Menningarlandið 2013

Brúarsmiðjan hefur tekið að sér verkefnisstjórn vegna ráðstefnunnar „Menningarlandið 2013 – framkvæmd og framtíð menningarsamninga“, sem haldin verður á Kirkjubæjarklaustri dagana 11. og 12. apríl nk. Að ráðstefnunni standa mennta- og menningarmálaráðuneyti, atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og Menningarráð Suðurlands í samstarfi við önnur menningarráð landsbyggðarinnar.

Megintilgangur ráðstefnunnar er að ræða framkvæmd og framtíð menningarsamninga ríkis og sveitarfélaga, sem og samstarf ríkis og sveitarfélaga við menningarráðin sem stofnuð hafa verið um land allt á undanförnum árum í kjölfar menningarsamninganna. Samningarnir, sem eru sjö talsins í jafnmörgum landshlutum, fela í sér markvissan stuðning ríkissjóðs við menningarstarf og menningarferðaþjónustu gegn mótframlagi sveitarfélaga og einkaaðila í héraði. Menningarsamningarnir renna allir út á þessu ári og því þarf að meta reynsluna af þeim til að geta gert áætlanir um framhaldið, m.a. með tilliti til Sóknaráætlunar 20/20. Allir þeir sem á einn eða annan hátt tengjast menningarstarfi og menningarferðaþjónustu á Íslandi eru hvattir til að taka dagana 11. og 12. apríl frá og mæta á ráðstefnuna, enda verða umræðurnar þar grundvöllur að frekara samstarfi ríkis og sveitarfélaga um menningarsamningana.

Brúarsmiðurinn vinnur nú að því ásamt vaskri verkefnisstjórn Menningarlandsins 2013 að setja saman spennandi dagskrá, sem kynnt verður áður en langt um líður á vefsíðu ráðstefnunnar, þar sem einnig er hægt að skrá sig.

Höfundur: |24/02/2013

Gleðilegt nýtt ár!

Brúarsmiðjan óskar samstarfsfólki og viðskiptavinum gleði, friðar og farsældar á nýju ári – og þakkar góðar viðtökur á fyrsta starfsárinu. Mörg spennandi verkefni eru í bígerð og verður gaman að glíma við þau ásamt góðu fólki.

Höfundur: |31/12/2012

Blogg um vetrarferðamennsku

Markaðsstofa Suðurlands vinnur nú að gerð vefsins Winter Wonderland, í því skyni að kynna vetrarferðamennsku á Suðurlandi fyrir erlendum ferðamönnum. Liður í því að halda vefnum lifandi er að setja oft og reglulega inn á hann bloggfærslur um fjölbreytta og spennandi möguleika í ferðaþjónustunni á Suðurlandi – allt árið um kring.

Nú hefur Markaðsstofan samið við Brúarsmiðjuna um að skrifa reglulegar bloggfærslur inn á vefinn. Brúarsmiðurinn mun fylgjast vel með fréttum af ferðaþjónustunni á Suðurlandi – og til að auðvelda enn fréttaflæðið eru ferðaþjónustuaðilar á svæðinu beðnir að senda fréttapunkta á margret@bruarsmidjan.is um það sem áhugavert gæti talist fyrir erlenda ferðamenn; viðburði á döfinni, nýjungar og náttúrufyrirbæri, umfjöllun í erlendum frétta- og ferðamiðlum, svo aðeins nokkur atriði séu nefnd. Fréttapunktarnir mega vera hvort heldur er á ensku eða íslensku, en bloggfærslurnar verða vitanlega skrifaðar á ensku.

Hér má sjá fyrstu fjórar færslurnar.

Höfundur: |23/11/2012

Haustlitir á Þingvöllum

Litadýrðin á Þingvöllum í dag var engu lík. Brúarsmiðurinn slóst í för með vöskum félögum úr Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar og sagði þeim sögur af mannlífi í Þingvallasveit – á milli þess sem mannskapurinn tók andköf af hrifningu yfir haustlitunum, urriðunum stóru sem byltu sér í stórum hópum í Öxará, köldu og tæru vatninu í gjánum – já og bara fegurð lífsins almennt! Í lokin var svo öllum hópnum boðið í mat í sumarbústað eins klúbbfélagans í Hestvíkinni, þar sem útsýnið yfir vatnið er hreint undursamlegt.

Höfundur: |29/09/2012

Brúarsmíði á farskóla

Farskóli safnmanna er fræðandi og skemmtilegt fyrirbæri – en fyrir óinnvígða er rétt að geta þess að farskólinn er árleg endurmenntun sem FÍSOS, Félag íslenskra safna og safnmanna, stendur fyrir. Að þessu sinni var Farskólinn haldinn í höfuðstað Norðurlands dagana 19.-21. september og brúarsmiðurinn tók þar nú þátt í fyrsta sinn.

Á Farskólanum hittist safnafólk víðsvegar að af landinu og ber saman bækur sínar, hlýðir á fyrirlestra, ræðir fagleg málefni, skoðar söfn og sýningar, styrkir tengslanetið og stillir saman strengi. Og vitanlega er einnig slegið á létta strengi, en að þessu sinni var árshátíð FÍSOS haldin í því sögufræga samkomuhúsi Sjallanum. Fyrirlestrar og fundir fóru fram í Hofi, glæsilegu menningarhúsi þeirra Norðlendinga. Fróðlegt var að heimsækja Smámunasafnið, Útgerðarminjasafnið á Grenivík, Laufás, Minjasafnið á Akureyri og Mótorhjólasafn Íslands, svo aðeins nokkur dæmi séu nefnd. Þá var gaman að spjalla við safnafólk – og byggja í leiðinni brýr til ýmissa átta. Starfsfólk Minjasafnsins á Akureyri, stjórn FÍSOS og aðrir þeir sem að undirbúningi og framkvæmd Farskólans stóðu eiga þakkir skildar fyrir sérlega vel unnið verk.

Meðfylgjandi mynd tók Þóra Björk Ólafsdóttir á Smámunasafni Sverris Hermannssonar.

Höfundur: |26/09/2012

Íslensk menning – í réttunum

Smalamennskur og réttir eru mikilvægir þættir í íslenskri menningu og þjóðarsál. Fjöldinn allur af fólki, hvort heldur er úr sveitum landsins eða þéttbýlinu, tekur virkan í þessum menningarviðburðum á hausti hverju. Brúarsmiðurinn er þar engin undantekning og smalaði að vanda í sínum heimahögum í Þingvallasveitinni síðastliðinn laugardag.

Enn er ekki alveg svo komið að fleira fólk en fé komi í Heiðarbæjarrétt, en þó má ekki miklu muna, því sífellt fleiri leggja leið sína í réttirnar, jafnt heimamenn, sumarbústaðafólk og aðrir gestir. Margir taka gestirnir virkan þátt og eru fúsir að læra handbrögðin; eyrnamörk og númer. Aðrir standa utan við réttarvegginn og fylgjast með úr hæfilegri fjarlægð, spjalla við mann og annan, yngri börnin leika sér utan réttar eða inni á túni, sum þeirra vilja helst setjast á bak stórum hrút, taka í hornin og þeysa um réttina. Sumir eru með brjóstbirtu á fleyg og bjóða öðrum með sér – og svo er alltaf gaman að taka lagið. Mismunandi hefðir hafa skapast á hverjum stað; sumstaðar er t.d. alltaf kjötsúpa á borðum á réttardaginn, annars staðar, eins og t.d. í Tungnaréttum, er sungið tímunum saman þegar búið er að draga í dilka.

Réttirnar eru góður vettvangur stefnumóts borgarbarna við sveitina og eiga að geta stuðlað að góðum samskiptum og skilningi þar á milli. Því er um að gera að bjóða alla velkomna í réttirnar – og nota tækifærið til að miðla þar sveitamenningunni. Brúarsmiðurinn er með ýmsar hugmyndir að útfærslu þeirrar miðlunar – en meira um það síðar…

Höfundur: |18/09/2012

Vefurinn kominn í loftið!

Það er brúarsmiðnum sérstök ánægja að kynna að vefur Brúarsmiðjunnar er kominn í loftið. Það má meðal annars þakka Kára Martinssyni Regal, grafískum hönnuði hjá PORTI hönnun, sem gaf góð ráð við val á vefumsjónarkerfi og sniðmáti. Fyrir valinu varð hið ljómandi handhæga vefumsjónarkerfi WordPress og sniðmátið Avada, sem hannað er af ThemeFusion. Kári sá síðan um að aðlaga útlitið þörfum Brúarsmiðjunnar, vinna myndir og ýmsa misjafnlega sýnilega en algjörlega ómissandi tæknivinnu á bak við tjöldin.

Heiðurinn að merki Brúarsmiðjunnar á Edda V. Sigurðardóttir, grafískur hönnuður hjá PORTI hönnun.

Höfundur: |11/09/2012