Nú er komið að tímamótum í Brúarsmiðjunni eftir sex ár við fjölbreytt verkefni á sviði menningarmiðlunar. Brúarsmiðurinn er búinn að ráða sig í nýtt starf, sem vefritstjóri hjá Alþingi, og mun því ekki taka að sér fleiri verkefni á fyrri vettvangi. Á lokametrunum eru nú fjögur verkefni, sem svo skemmtilega vill til að öll eru í formi bóka: Sú þeirra sem fyrst kemur út er um Friðheima og er í ritstjórn brúarsmiðsins. Árbók Ferðafélags Íslands 2019 um Mosfellsheiði sem kemur út næsta vor og gönguleiðabók um heiðina sem kemur út í kjölfarið eru unnar af þremur höfundum; Margréti, Bjarka Bjarnasyni og Jóni Svanþórssyni, og loks er að geta 100 ára afmælisrits Kvenfélags Grímsneshrepps, sem sömuleiðis kemur út næsta vor og er vel á vegi. Brúarsmiðurinn þakkar viðskiptavinum og samverkafólki kærlega fyrir farsælt samstarf á liðnum árum – og hlakkar til að spreyta sig á nýjum vettvangi við Austurvöll.